Beint í efni

Nokkrar vörður í langri sögu

Saga sem spannar sjö áratugi

Björgun ehf. var stofnað þann 11. febrúar 1952. Reksturinn snerist í upphafi um björgun strandaðra skipa og er nafn félagsins þannig til komið.

Fyrsta verkefni Björgunar var að vinna að niðurrifi flutningaskipsins Clam sem strandað hafði á Reykjanestá. Meðal stofnenda félagsins var Kristinn Guðbrandsson og var hann helsti sérfræðingur félagsins um björgun strandaðra skipa og í raun þjóðsagnapersóna fyrir þau afrek. Kristinn var fyrsti forstjóri fyrirtækisins og stýrði félaginu farsællega um áratugaskeið.

Leo og Sandey

Fyrstu dæluskipin

Árið 1954 eignaðist Björgun sitt fyrsta dæluskip sem hlaut nafnið Leo og var það fyrsti vísir að breyttri starfsemi fyrirtækisins. Leo var í rekstri allt til ársins 1975.

Árið 1962 var stigið stórt skerf í sögu fyrirtækisins þegar það keypti flutningaskipið Wumme og lét breyta því í sanddæluskip í Þýskalandi. Wumme fékk nafnið Sandey við heimkomuna og Björgun kom sér upp athafnasvæði við Vatnagarða í Reykjavík.

Við Vatnagarða í Reykjavík kom félagið sér upp aðstöðu til löndunar og flokkunar á sandi og möl. Efninu var dælt upp í hörpu sem flokkaði efnið i fjóra stærðarflokka. Þessi aðferð var notuð allt til ársins 2008 þótt efnisvinnslan hafi með tímanum orðið mun meiri en var í fyrstu.

Fyrsti forstjórinn

Kristinn Guðbrandsson

Árið 1965 bjargaði Kristinn Guðbrandsson og menn hans flutningaskipinu Susanne Reith sem tekið hafði niðri við innsiglinguna í Raufarhöfn. Þegar Kristinn kom á vettvang höfðu menn gefið upp alla von um að hægt væri að bjarga skipinu en með útsjónarsemi og seiglu tókst að koma skipinu á flot og var það dregið til Skotlands þar sem því var breytt í efnisflutningaskipið Grjótey. Grjótey var í eigu Björgunar til ársins 1970 þegar skipið var selt. Sandey II bættist í flota Björgunar árið 1976 og dæluskipið Perla, árið 1979 sem var í rekstri allt til ársins 2015 þegar skipið sökk við niðurtöku úr slipp. Um tíma gerði Björgun því út þrjú dæluskip en Sandey II var rekin allt til ársins 1983.

Sigurður R. Helgason tók við framkvæmdastjórn félagsins árið 1981 og stýrði félaginu við góðan orðstýr inn í nýja spennandi tíma. Árið 1988 urðu svo enn ein þáttaskilin í sögu Björgunar þegar dæluskipið Sóley bættist í flotann en skipið var mun stærra og afkastameira en fyrri skip félagsins. Sandey var lagt í byrjun tíunda áratugarins.

Sævarhöfði og starfsemi

Uppbygging bryggjuhverfis

Upp úr 1990 hófst nýr kafli í sögu Björgunar þegar félagið réðst í stækkun á lóð félagsins við Sævarhöfða og uppbyggingu bryggjuhverfis að erlendri fyrirmynd. Hugmyndin var þróuð í samvinnu við Björn Ólafs arkitekt og var upphafið að þátttöku Björgunar í landaþróunarverkefnum þar sem nálægðin við hafið er nýtt til afþreyingar og útivistar. Björgun hefur síðan, stundum í samvinnu við aðra, lagt fram fjölda hugmynda að sambærilegum verkefnum. Tvö þeirra, Sjáland í Garðabæ og Bryggjuhverfi á norðanverðu Kársnesi í Kópavogi, bæði unnin í samvinnu við Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., hafa orðið að veruleika.

Björgun hefur ávallt haft á að skipa góðu starfsfólki sem hefur sýnt mikinn metnað, fagmennsku og þolinmæði í gegnum tíðina. Vert er að nefna að öðrum ólöstuðum störf Gunnlaugs Kristjánssonar fyrrverandi forstjóra félagsins sem féll frá árið 2015 langt fyrir aldur fram en hann var ráðinn til félagsins árið 2007.

Nýtt athafnasvæði í Álfsnesvík

Námuvinnsla og sanddæluskip

Björgun starfrækir tvö dæluskip, Álfsnes og Sóleyju, sem sjá um margvísleg verkefni tengd hafnarframkvæmdum, dýpkunum og efnisvinnslu.

Björgun rekur einnig námuvinnslu í Lambafelli í Þrengslum í sveitarfélaginu Ölfuss.

Björgun er í eigu Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf.