Áhrif á lífríki

Neikvæð áhrif vegna efnisvinnslu á hafsbotni eru fyrst og fremst talin vera áhrif á lífríki og hætta á auknu landbroti. Við gerð umhverfismats vegna námavinnslu félagsins hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á þessum þáttum. Ljóst er að áhrif á lífríki eru einhver en ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þau séu óásættanleg. að teknu tilliti til annarra valkosta. Rannsóknir benda til þess að lífríki í námum Björgunar sé almennt frekar fátæklegt, tegundafjöldi lítill og verndargildi sömuleiðis. Hafrannsóknarstofnunin hefur þó bent á að vinnslan geti haft neikvæð áhrif á mikilvæg uppvaxtarsvæði flatfiskaungviðis og að námusvæði fyrirtækisins við Syðra-Hraun séu mikilvægar uppeldisstöðvar marsílis. Því miður hafa  litlar sem engar grunnrannsóknir verið gerðar á þessum þáttum en Björgun hefur í umsókn um nýtingarleyfi tekið tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar frá 2007 um aflatölur í Faxaflóa og í Hvalfirði sem gerð var í tengslum við umhverfismatið, kemur fram að talsverðar sveiflur eru á aflatölum milli ára. Til samanburðar hefur efnistaka Björgunar haldist nokkuð stöðug á sama tíma. Í skýrslunni segir að með tilliti til þessa sé erfitt að tengja sveiflur í aflatölum við efnisnám Björgunar. Ekki sé að sjá að efnistaka Björgunar valdi beinum áhrifum á nytjastofna.

Björgun mun á næstu árum láta fara fram frekari rannsóknir á lífríki í Hvalfirði og áhrif vinnslu á það. Rannsóknirnar verða gerðar samhliða vinnslu félagsins og verður afmörkuðum svæðum í námunum í Hvalfirði lokað fyrir efnisvinnslu meðan rannsóknir standa yfir.