Áhrif á landbrot

Ljóst er af ýmsum heimildum að landbrot hefur átt sér stað við strendur Faxaflóa lengur en elstu menn muna. Skýringa á því er fyrst og fremst að leita í hækkun sjávarborðs, landsigi, mikilli orku brims á svæðinu og mishörðum jarðlögum við strendur þess. Þorleifur Einarsson, fyrrum prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, mat að fjörumörk hefðu hækkað um 1-1,5 metra á Reykjavíkursvæðinu frá landnámsöld. Þar leggst á eitt sjávarborðshækkun og landsig. Vel þekkt er að á 16. og 17. öld var verslunarstaður á Hólmanum vestan Örfiriseyjar. Þar lagðist verslun af í kringum 1698 vegna ágangs sjávar. Fyrir um 100 árum skolaði sjór burtu síðustu leifum jarðvegs og nú er Hólminn ekki annað en sker. Raunar er vitað um fleiri eyjar við Faxaflóa sem áður voru byggðar og nýttar en eru í dag undir miklum ágangi sjávar, svo sem Hvalseyjar við Mýrar og Hafursfjarðarey í Hafursfirði. Þá hefur einnig orðið mikið landbrot af völdum sjávar í Hvalfirði og Borgarfirði í aldanna rás. Um slíkt er m.a. getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þar sem segir t. d. um Hjarðarnes á Kjalarnesi:

„Túnið brýtur sjáfargángur skaðlega, so þar fyrir hefur bærinn fluttur verið og er þó enn í hættu“

Mörg önnur dæmi eru í Jarðabókinni um landbrot af völdum sjávarágangs á Kjalarnesi, í Hvalfirði og í Melasveit.

Þekkt er að lækkun sjávarbotns vegna efnisvinnslu getur við vissar aðstæður valdið breytingum á öldufari bæði til hækkunar og lækkunar ölduhæðar. Í mati á umhverfisáhrifum af vinnslu Björguna á efni af hafsbotni gerði Siglingastofnun ítarlega útreikninga á áhrifum vinnslunnar á öldufar. Útreikningar Siglingastofnunar leiddu til þess að vinnslu hefur verið hætt í tveimur námum í Kollafirði og áætluð efnistaka úr annarri námu minnkuð verulega og námumörkum breytt. Siglingastofnun telur ekki líkur á að efnistaka í Hvalfirði muni leiða til aukins landbrots jafnvel þó efnistaka yrði mun meiri en Björgun hefur sótt um nýtingu á. Engu að síður hafa námumörk í fjórum námum í Hvalfirði verið færðar fjær landi vegna varúðarsjónarmiða.