Efnistaka úr sjó

Námuvinnsla hefur eðlilega alltaf einhver áhrif á umhverfið en það er sterk sannfæring Björgunar að umhverfisáhrif af efnistöku á hafsbotni séu í langflestum tilvikum óveruleg og ávallt minni en þegar efni er tekið af landi og því ekið á notkunarstað um langan veg.

Gífurlegur umhverfiskostnaður myndi fylgja því að vinna sama magn efnis og Björgun vinnur af hafbotni úr landnámum þar sem efnistökusvæðin eru oft langt frá notkunarstað efnisins. Landnámur eru oft og tíðum þannig staðsettar að afla þarf allrar orku til vinnslunnar með brennslu olíu. Þetta á við um allar stærstu landnámur á höfuðborgarsvæðinu. Vinnslusvæði Björgunar við Sævarhöfða hefur nú verið að fullu rafvætt og eru nú öll tæki, að moksturstækjum undanskildum, knúin rafmagni. Orkunotkun Sóleyjar, dæluskips Björgunar, jafngildir orkunotkun átta til tíu stórra efnisflutningabíla en skipið flytur sjötíu til áttatíu sinnum meira magn.

Olíunotkun við dælingu, flutning og losun efnis úr einni af námum Björgunar í Hvalfirði nemur um 1.6 – 1.8  lítrum/rúmmetra. Samsvarandi olíunotkun fyrir losun efnis úr landnámu og flutning um 40 km leið nemur 3.5 – 3,7  lítrum/rúmmetra. Aukin efnistaka á landi kallar á enn meiri umferð flutningabíla og leiðir til aukinnar slysahættu, mengunar, svifryks, olíubrennslu sem og aukins slits á vegum landsins að ekki sé minnst á þau óþægindi sem íbúar hefðu af svo umfangsmiklum efnisflutningum í gegnum þéttbýli. Einn flutningabíll án tengivagns slítur vegum á við 9 þúsund fólksbíla og sé flutningabíllinn með tengivagn er slitið sem hann veldur á við slit af völdum 12 þúsund fólksbíla.

Því má svo bæta við að tíðni umferðaslysa er hlutfallslega meiri af völdum flutningabíla en fólksbíla samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu.