Saga

Björgun ehf. var stofnað 11. febrúar árið 1952. Reksturinn snerist í upphafi  um björgun strandaðra skipa og er nafn félagsins þannig til komið. Fyrsta verkefni félagsins var að vinna að niðurrifi flutningaskipsins Clam sem strandað hafði á Reykjanestá. Meðal stofnenda félagsins var Kristinn Guðbrandsson en hann var helsti sérfræðingur landsins í björgun strandaðra skipa og í raun þjóðsagnapersóna fyrir þau afrek. Kristinn var fyrsti forstjóri félagsins og stýrði því farsællega um áratugaskeið.  Árið 1954 eignaðist Björgun sitt fyrsta dæluskip sem hlaut nafnið Leo og var það fyrsti vísir að breyttri starfsemi félagsins. Árið 1962 var annað stórt skref stigið í sögu fyrirtækisins þegar það keypti flutningaskipið Wumme og lét breyta því í sanddæluskip. Wumme fékk nafnið Sandey við heimkomuna. Sama ár kom Björgun sér upp athafnasvæði við Vatnagarða í Reykjavík þar sem m.a. var sett upp aðstaða til löndunar og til flokkunar á sandi og möl. Efni var dælt upp í hörpu sem flokkaði það síðan í fjóra stærðarflokka. Þessi aðferð var notuð allt til ársins 2008. Björgun starfaði við Vatnagarða  til ársins 1976 þegar fyrirtækið flutti á starfsemi sína að Sævarhöfða þar sem það starfar enn í dag.

Skipafloti Björgunar stækkaði með kaupum á Sandey II árið 1976 og dæluskipinu Perlu, árið 1979. Perla er enn í rekstri. Um tíma gerði Björgun því út þrjú dæluskip en Sandey II var í eigu fyrirtækisins til ársins 1983. Enn ein þáttaskil í sögu Björgunar urðu árið 1988 þegar dæluskipið Sóley bættist í flotann en skipið var mun stærra og afkastameira en fyrri skip fyrirtækisins. Sandey var lagt í upphafi tíunda áratugarins.

Upp úr 1990 hófst nýr kafli í sögu Björgunar þegar fyrirtækið réðst í stækkun á lóð sinni við Sævarhöfða og uppbyggingu bryggjuhverfis að erlendri fyrirmynd. Hugmyndin var þróuð í samvinnu við Björn Ólafs arkitekt og var upphafið af þátttöku Björgunar í landaþróunarverkefnum. Björgun hefur síðan lagt fram fjölda hugmynda að öðrum sambærilegum verkefnum. Tvö þeirra, Sjáland í Garðabæ og Bryggjuhverfi á norðanverðu Kársnesi í Kópavogi, hafa orðið að veruleika en þessi verkefni hefur Björgun unnið í samvinnu við Byggingafélag Gunnars og Gylfa ehf.

Jarðboranir hf. keyptu Björgun árið 2003 og fjárfestingafélagið Atorka keypti síðan Jarðboranir árið 2005 og var fyrirtækið rekið sem dótturfélag Jarðborana um tíma. Árið 2007 var Björgun aðskilin frá Jarðborunum og hefur síðan þá verið rekin sem sjálfstætt félag innan Atorkusamstæðunnar.

Í dag rekur Björgun tvö dæluskip, Sóley og Perlu. Auk þess rekur fyrirtækið gröfuprammann Reyni og efnisflutningaprammann Pétur mikla en prammana eignaðist Björgun þegar fyrirtækið keypti Sæþór ehf. af Sveinbirni Runólfssyni árið 2006. Þá rekur Björgun minni gröfupramma, Eiðsvík, dráttarbátinn Kleppsvík og efnisflutningaprammann Loka.