Sjáland í Garðabæ

Árið 2000 var undirrituð viljayfirlýsing milli Garðabæjar annars vegar og Björgunar  og Bygg hins vegar um uppbyggingu íbúðabyggðar við Arnarnesvog í Garðabæ. Björgun og Bygg réðu í framhaldinu Björn Ólafs arkitekt til að vinna deiliskipulag að nýju íbúðahverfi ásamt höfn fyrir skemmtibáta. Uppbygging hófst árið 2003 og er gert ráð fyrir að í hverfinu fullbúnu verði rúmlega 800 íbúðir auk skóla, leikskóla og hjúkrunarheimilis. Í hverfinu er eins og í öðrum strandhverfum sem Björgun hefur komið að lögð áhersla á nálægðina við hafið og reynt að nýta hana sem best til útivistar og tómstunda. Allur frágangur húsa og yfirbragð hverfisins er hið glæsilegasta og er hægt að fullyrða að meira sé lagt í umhverfisgæði en í nokkru öðru nýbyggingarhverfi á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugi. Sjáland, ein aðalgata hverfisins, hlaut árið 2007 viðurkenningu sem fallegasta gata Garðabæjar. Rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Hallgrímur Helgason var fenginn til að gefa hverfinu og götum þess nöfn og eiga þau sér öll fyrirmyndir í fyrrum höfuðborg Íslendinga, Kaupmannahöfn.